Kominn aftur í marsípan og ævintýralandið Odense

Hæ,

Ég er ennþá á lífi...ósköp lítið að frétta. Ég hef verið upptekinn af því að hjúkra dóttur minni þessa dagana. Hún hefur verið veik síðan á mánudagskvöld. Hún var orðin hress á miðvikudag og ég leyfði henni að fara í barnaafmæli með stúlkunum í bekknum. Ég hitti kennarann hennar og sagði henni að mér fyndist hún vera nógu hraust, en viti menn Dísa varð svo aftur veik um kvöldið þannig að það var ákveðið að taka enga sénsa með þetta og halda henni heima fram að helgi. Svo ég sit hérna heima hjá Sólrúnu og sötra kaffið mitt og vafra um netið. Börnin koma svo til mín í kvöld og við ætlum að "detta í´ða" með pizzu, popp og bíómynd. Ægileg spenna í gangi. Svo er stefnan á morgun að baka með genginu. Veðrið þessa dagana er ekki að bjóða upp á mikla útiveru.

Ég er annars að bíða eftir svari frá hinu háu herrum í Róm og vænti svars í næstu viku. Það þýðir að maður er ekki lengur í biðstöðu og getur betur planað næsta leik. Ef af verður þá verð ég í 6 mánuði á Ítalíu og ég neita því ekki að ég kvíði því smá út af börnunum. Því er þó ekki að neita að það væri della að sleppa þessu tækifæri.

Að öðru þá eru Danir frekar kátir með að hafa lagt Spánverjana í handboltanum á sama tíma og við sleikjum sárin yfir tapinu gegn Pólverjum í leik þar sem einhvern veginn Ísland hefði átt að vinna, en bara hreinlega klúðruðu því. Ég er svo sem sáttur við liðið. Það er keyrt á sömu 7-8 mönnum og það tekur sinn toll. Kæmi mér ekki á óvart bara þess vegna að liðið vinni ekki fleiri leiki. Breiddin er bara of lítil. Maður verður víst að vera raunsær.

Verslaði mér mp3 spilara á netinu í gær og sparaði nú bara töluvert miðað við hvað ég hefði þurft að borga út í búð. Var að lesa það í dag í blaðinu Computerworld að fjöldi "netsala" (Hampiðjan ekki meðtalin) í Danmörku hefur fjölgað umtalsvert á síðasta ári, enda ótrúlega lítill kostnaður fólginn í því að hefja rekstur í gegnum netið. Aldrei að vita nema að ég fari í gang með smá sölu líka.

kveðja í bili,

Arnar Thor

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Dómaraskandall í leikunum í gær, voru of hliðhollir þeim pólsku. Sennilega verið mútað með vænum slatta af prins polo :Þ

Vona að Dísa skvísa fari að hressast. Þú kyssir hana frá mér.

Guðrún

Vinsælar færslur